Tuesday, September 8, 2009

Af mjúkhýsisumræðu

Í ljósi mikils áhuga fjölmargra á áformum okkar Hvergerðinga um byggingu mjúkhýsis hér í bæ þá ákvað ég að setja upp sérstaka síðu þar sem upplýsingum væri safnað á einn stað. Það er fátt eins gagnslaust og illa upplýst umræða og því er um að gera að sem flestir kynni sér hvað hér er á ferðinni.

Hér má skoða heimasíðu Duol, eins fremsta framleiðanda mjúkhýsa í heiminum í dag.

Einn fremsti fótboltaklúbbur í Noregi Rosenborg í Þrándheimi var að reisa mjúkhýsi sem er yfir 10.000 m2 að stærð. Þeir völdu Duol hús að undangenginni yfirgripsmikilli könnun á gæðum mjúkhýsa frá fleiri framleiðendum.
Hér er slóð á síðu klúbbsins. Þar má líka finna slóð á blogg þar sem sjá má þegar húsið reis.

Þessi skilaboð komu til mín frá formanni sunddeildar Hamars:
Formaður sundnefndar leggur til að bæjarstjórnin fái 2 fyrir einn dúk í þessum díl!!! Þá get ég boðið upp á stærstu innilaug landsins á veturna og tekið draslið niður þegar fer að vora. Mikill asskotans munur yrði það Þarna er reyndar um að ræða litlu systur sem skýrir hreinskilnina ;-)

Hér er hægt að fylgjast með þegar lítið mjúkhýsi er reist á skólalóð í Bandaríkjunum. Lagið er flott! !

Færsla af www.aldis.is :
Suma daga eru fjölmiðlar fyrirferðameiri en aðra og þessi var einn af þeim. Fyrir hádegi kom Magnús Hlynur og tók við mig viðtal fyrir sjónvarpið um mjúkhýsið eða loftborna íþróttahúsið eins og það ætti kannski frekar að kallast. Hann byrjaði hjá mér en fór síðan og tók viðtal við Dísu Þórðar sem er alfarið á móti þessari byggingu. Ég hef skilning á því að fólk sé á öndverðum meiði en geri þó þá kröfu að sýnd sé sanngirni og upplýsinga leitað áður en rangfærslur eru bornar á borð eins og borið hefur við í málflutningi minnihlutans í þessu máli. Loftborin íþróttahús hafa risið út um allan heim og verið þar í notkun til fjölda ára. Erlendis er þetta alþekkt byggingarform og þykir ekki einu sinni í frásögur færandi. Þegar starfsmenn Kjörís fóru til Montreal í haust fékk ég KSÍ til að finna fyrir mig mjúkhýsi til að skoða og var það auðsótt mál. Við Lárus leigðum bíl og keyrðum í eitt úthverfi borgarinnar til að skoða húsið en á leiðinni sáum við ein þrjú önnur svo þau voru á hverju strái. Heimsóttum við hús sem hýsti golfæfingavöll og hittum þar framkvæmdastjórann sem rekið hafði húsið í ein tíu ár. Hann var afar ánægður með það og þegar ég sagði honum frá umræðunni hérna heima þá skildi hann ekki hvað ég var að meina. Neikvæð afstaðan var honum algjörlega óskiljanleg svo algeng eru þessi hús þarna úti. Hús frá Duol er að finna í hverju einasta Norðurlandanna og sem dæmi þá er fótboltafélagið Rosenborg í Þrándheimi nýbúið að reisa rúmlega 10.000 m2 byggingu fyrir klúbbinn. Hér má sjá myndir af því þegar húsið er blásið upp og lesa um hrakfarir klúbbsins varðandi hús annarrar tegundar sem hvatti þá til að kaupa einmitt hús eins og það sem við erum að velta fyrir okkur. Myndin hér til hliðar er einmitt af Abrahöllinni í Þrándheimi (Abrakadabra altså!) Síðan má geta þess að Knattspyrnufélagið Fulham æfir í einu slíku, heimsmeistarakeppnin í handbolta kvenna var haldin í mjúkhýsi, sundlaug í Stokkhólmi er í mjúkhýsi og áfram mætti telja.
En hér sýnum við slíkan afturhaldshugsunarhátt, að þessu byggingarformi er fundið allt til foráttu. Núna er aftur á móti tíminn til að hugsa út fyrir kassann og leita leiða til að gera hlutina ódýrari en áður. Loftborið íþróttahús er mun ódýrara en hefðbundin íþróttahús miðað við þær forsendur sem við höfum gefið okkur. Og þó ekkert sé fast í hendi í þeim efnum þá bindum við vonir við að kostnaðurinn við 4500m2 hús væri eitthvað undir 300 milljónum króna.
Aftur á móti er mikilvægt að íbúar geri sér grein fyrir því að bygging hússins er ekki að hefjast á næstu mánuðum. Ýmis undirbúningur er eftir og síðan auðvitað fjármögnun og könnun á þeim möguleikum sem þar eru fyrir hendi. Við ætlum aftur á móti ótrauð að halda áfram með undirbúninginn því kreppan má aldrei verða til þess að við hættum að skipuleggja og marka okkur stefnur og móta leiðir.

No comments:

Post a Comment